Innlent

Icesave enn í hnút

Alger óvissa ríkir um það hvort annarri umræðu um Icesave frumvarpið lýkur í kvöld og atkvæði greidd um það á morgun eins og samið var um fyrir helgina. Fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd segir að umræðum verði haldið áfram liggi ekki fyrir hvernig tekið verði á málinu í nefndinni.

Stjórn og stjórnarandstaða gengu frá samkomulagi á föstudag sem fól í sér að annarri umræðu um Icesave lyki í dag eða kvöld og atkvæðagreiðsla færi fram um málið á morgun. Þetta samkomulag komst í uppnám í morgun þegar fulltrúar Framsóknarflokks og Hreyfingarinnar í fjárlaganefnd gengu af fundi nefndarinnar þar sem þeir töldu að verið væri að fara á bakvið samkomulagið.

„Það er ekki komin niðurstaða í málið. Eins og ég skil formann og varaformann nefndarinnar telja þeir sig ekki bundna af því samkomulagi sem gert var fyrir helgi eins og það var orðað á fjárlagafundi í morgun," sagði Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, eftir fund fjárlaganefndar á sjöunda tímanum í kvöld.

Málið snýst um að stjórnarandstaðan vill að það liggi fyrir hvernig fjárlaganefnd afgreiðir fjórtán atriði sem stjórnarandstaðan kynnti á föstudag að hún teldi að fara yrði vandlega yfir í fjárlaganefnd. Fulltrúar stjórnarflokkanna telja hins vegar að þau atriði eigi ekki að ræða fyrr en annarri umræðu sé lokið og málið formlega komið inn í fjárlaganefnd. Ef ekki semst er málið aftur komið í hnút.

Höskuldur á ekki von á öðru en atkvæðagreiðsla um frumvarpið fari fram eftir hádegi á morgun. „Ég hef enga trú á öðru en eins og staðan er núna er ekki samkomulag en menn munu tala saman og reyna að lenda málinu."

Höskuldur ítrekar þó að stjórnarandstaðan muni tala eins lengi hún þurfi um frumvarpinu náist ekki samkomulag. Margt sé ósagt í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×