Innlent

Gunnar vill 2. sæti VG í Reykjavík

Gunnar Sigurðsson.
Gunnar Sigurðsson.
Gunnar Sigurðsson, stjórnmálafræðingur, hefur ákveðið að óska eftir öðru sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar -græns framboðs í Reykjavíkurkjördæmunum sem fram fer 7. mars. Hann starfaði sem kosningastjóri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi vorið 2007.

,,Sökum hugmyndafræðilegs gjaldþrots þeirra flokka sem setið hafa á valdastólum hér á landi síðan 1991 hefur þjóðarskútan rekist á ísjaka frjálshyggjunnar. Ein af afleiðingum árekstursins endurspeglast í ósk um endurnýjun í forystusveitum stjórnmálaflokka. Þó að grunnstoðir hugmyndafræði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafi ekki beðið skipsbrot hafa óskir almennings um ferska vinda í íslensk stjórnmál náð eyrum flokksins. Flokksfélagar þurfa því að vanda val sitt og blanda þeirri miklu reynslu, í því frábæra fólki sem skipar framvarðasveit flokksins, saman við ferska og nýja vinda sem sækjast eftir forystusætum í flokknum," segir Gunnar í tilkynningu.

Gunnar er 36 ára stjórnmálafræðingur og lýkur mastersnámi í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands í vor. Kona Gunnars er Agnes Guðjónsdóttir, lögfræðingur. Saman eiga þau dreng, en fyrir átti Gunnar eina dóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×