Innlent

Fækkun þyrla afleitur kostur

Dómsmálaráðherra vill leita allra mögulegra leiða áður en þyrlum Landhelgisgæslunnar verður fækkað. 
Fréttablaðið/Valli
Dómsmálaráðherra vill leita allra mögulegra leiða áður en þyrlum Landhelgisgæslunnar verður fækkað. Fréttablaðið/Valli

„Mér finnst þetta afleitur kostur. Ef af verður er þetta það alvarlegt mál að ég mun kynna það ríkisstjórn. Ég vil skoða alla aðra möguleika áður en gripið verður til þessa ráðs og hef þegar óskað eftir minnisblaði frá Landhelgisgæslunni um þetta,“ segir Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra um þá hugmynd að fækka þyrlum Landhelgisgæslunnar úr þremur í tvær.

Ragna skipaði í haust þverpólitíska nefnd til að fara yfir rekstur Landhelgisgæslunnar. Hún telur að nefndin sé ákjósanlegur vettvangur til að fara yfir málin, enda skipuð fulltrúum Landhelgisgæslunnar og þingmönnum úr stjórn og stjórnarandstöðu.

Landhelgisgæslan þarf að skera niður 300 milljónir króna á næsta ári, um tíu prósent af rekstri sínum. Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, sagði í hádegisfréttum Stöðvar 2 í gær að verið væri að kanna hvar hægt væri að skera niður og draga úr starfsemi. Fækkun á þyrlum gæslunnar væri síðasti kosturinn í stöðunni.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru notaðar fyrir öryggis- og löggæslu og leitar- og björgunarflug. Ragna segist fyrst og fremst hafa áhyggjur af öryggi sjófarenda. Þeim áhyggjum deilir Sjómannasambandið með henni, sem leggst alfarið gegn fækkuninni. - hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×