Erlent

Flórídabúar mestu kaffidrykkjumenn Bandaríkjanna

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/Reallynatural.com

Íbúar Tampa í Flórída eru mestu kaffidrykkjumenn í gervöllum Bandaríkjunum samkvæmt nýlegri könnun.

„Það hressir Bragakaffið," sagði í lífseigri auglýsingu sem flestir Íslendingar yfir 25 ára aldri muna vafalítið glöggt eftir. Þeir sem líklegastir eru til að taka undir þá fullyrðingu í Bandaríkjunum eru íbúar borgarinnar Tampa í Flórída. Þeir eru bókstaflega vitlausir í koffein í nánast hvaða mynd sem er ef marka má könnun samtakanna HealthSaver sem náði til allra Bandaríkjanna.

Í Tampa er að finna hæst hlutfall fólks sem myndi velja verkjalyf sem innihalda koffein, drekka orkudrykki og te með koffeini, borða súkkulaði, koffeintöflur og síðast en ekki síst drekka kaffi - og það í hitanum í Flórída. Auk þess að skipa fyrsta sætið í koffeinneyslu náðu íbúar Tampa líka toppsætinu í að vera sá hópur sem telur minnstar líkur á að ánetjast koffeini. Þeir hafa því ekki minnstu áhyggjur af þessari stöðu sinni og eru í ofanálag mestu verkjatöfluætur Bandaríkjanna.

Sjálf Seattle, vagga hinna heimsfrægu Starbucks-kaffihúsa, verður að gera sér að góðu annað sætið í bandarískri kaffidrykkju og Chicago það þriðja. Það er svo í Riverside í Kaliforníu sem kaffidrykkjan er minnst. Þar er heldur ekkert skammdegi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×