Innlent

Magnús Þorsteinsson hyggst stefna Stöð 2

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Magnús Þorsteinsson segir frétt Stöðvar 2 frá því í gær vera ósannindi. Mynd/ E. Ól.
Magnús Þorsteinsson segir frétt Stöðvar 2 frá því í gær vera ósannindi. Mynd/ E. Ól.

Magnús Þorsteinsson athafnamaður segir að frétt Stöðvar 2 frá því í gærkvöldi, þar sem því var haldið fram að hann hafi flutt mikla fjármuni frá Íslandi til skattaskjóla, í gegnum fjárfestingabankann Straum, sé helber ósannindi. Hann hafi aldrei átt fjármuni inni á reikningum í bankanum.

„Ég óska hér með eftir afsökunarbeiðni vegna þessarar umfjöllunar, frá fréttastofu Stöðvar 2 með jafn áberandi hætti og upphaflega fréttin, þegar hún var sögð. Verði Stöð 2 ekki við þessari sanngjörnu ósk minni, mun ég leita til dómstóla og leita þar réttar míns," segir Magnús.

„Margt hefur verið sagt ónákvæmt og ósatt um mína persónu sem hluta af hinum skilgreindu „auðmönnum." Flest hefur maður látið yfir sig ganga, en hér verð ég að draga línuna. Það má ekki reka íslenska fjölmiðla áfram á lygum, ekki frekar en aðrar stofnanir. Ég hef falið lögmanni mínum að undirbúa stefnu á hendur fréttastofu Stöðvar 2, með þeim hætti sem réttarkerfið býður upp á," bætir Magnús við.

Þá segja forsvarsmenn Straums umfjöllun Stöðvar 2 vera tilhæfulausa með öllu og til vanvirðu fyrir fréttastofu Stöðvar 2. Straumur hafi falið lögmönnum sínum að leggja mat á réttarstöðu bankans vegna málsins.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×