Innlent

Eyddu margföldum sparnaði Landspítalans í lúxus

Stjórnendum Landspítalans er gert að spara tvo komma sex milljarða króna á þessu ári og útlit er fyrir að það sé bara byrjunin. Það eru þó smáaurar miðað við tölurnar sem tengjast landvinningum útrásarvíkinga síðustu misseri.

Á meðan góðærið stóð sem hæst voru tölur líkt þessi, tveir komma sex milljarðar króna, ekki óalgengar en þá í allt öðru samhengi en við sparnað.

Þannig keyptu Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir lúxussnekkju á árinu 2007. Kaupverðið fékkst ekki gefið upp en sérfræðingar sem vel þekkja til telja að verð hennar hafi verið um tveir milljarðar króna.

Sigurður Einarsson fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings keypti um mitt síðasta ár íbúð í Lundúnum á tíu og hálfan milljón punda en það er um einn komma sjö milljarður króna miðað við gengi pundsins í dag.

Fleiri fjárfestu í íbúðum erlendis. Bakkabróðirinn Lýður Guðmundsson keypti sér íbúð í Lundúnum árið 2007. Íbúðin var á lista yfir tíu dýrustu húseignir þar í borg á þeim tíma og kostaði 12 milljónir punda eða tæpa tvo milljarða króna á núverandi gengi.

Jón Ásgeir og Ingibjörg keyptu sér svo lúxusíbúð í New York í fyrra. Íbúðin var sett á sölu í síðustu viku og er verðið tveir komma níu milljarðar króna, eða nálægt þeirri upphæð sem spara á í heilbrigðiskerfinu.

Í góðærinu var ekkert því til fyrirstöðu fyrir Björgólf Guðmundsson að kaupa eitt stykki enskt knattspyrnufélag. West Ham var keypt á fjórtán milljarða króna í lok árs 2006. Félagið er nú til sölu með verðmiða upp á þrjátíu milljarða króna.

Þá er áætlað er að einkaþotufloti íslenskra auðmanna á síðasta ári hafi verið um fimmtán milljarða króna virði. Á meðal þeirra er þota í eigu Bakkabræðra sem metin var á þrjá milljarða króna.

Kaup Íslendinga á sögufrægum byggingum og verslunum í Kaupmannahöfn, eins og Magasin du Nord og Illum, vöktu blendin viðbrögð í hjá Dönum sem hristu haus yfir öllu því sem Íslendingar keyptu þar í landi. Haustið 2007 keypti íslenska félagið Nordic Partners dönsku hótelkeðjuna Remmen Hotels. Kaupverð fékk ekki uppgefið en heimildir voru fyrir því að það væri á bilinu 15 til 20 milljarðar íslenskra króna. Aðalhótelið í keðjunni er hið sögufræga Hotel D'Angleterre sem er einn af gimsteinum Kaupmannahafnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×