Erlent

Pólverjar vilja afsökunarbeiðni frá Pútín

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands.
Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands.

Pólverjar krefjast þess að Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, biðjist afsökunar á samkomulagi Sovétmanna við Adolf Hitler árið 1939.

Afsökunarbeiðnina vilja Pólverjar fá þegar evrópskir embættismenn koma saman á morgun og minnast þess að 70 ár eru liðin frá því að síðari heimsstyrjöldin hófst. Samkomulag Sovétmanna og Hitlers, hinn svonefndi Ribbentrop-Molotov-sáttmáli, gekk meðal annars út á að Póllandi yrði skipt til helminga milli Moskvu og Berlínar eftir innrás Hitlers þetta örlagaríka haust.

Fá lönd urðu eins illa úti í styrjöldinni og Pólland en þar reistu nasistar fjölda útrýmingarbúða, svonefndra Vernichtunslager, meðal annars hinar illræmdu Auswitz, Sobibor og Treblinka. Pútín gefur lítið fyrir kröfur Pólverja um afsökunarbeiðni og rökstyður einfaldlega með því að Sovétmenn hafi á sínum tíma gert nákvæmlega það sem þeir urðu að gera til að verja sína eigin hagsmuni þegar sáttmálinn var undirritaður 23. ágúst 1939.

Sovétleiðtoginn Josef Stalín lét myrða 20.000 pólska hermenn og grafa þá í Katyn-skógi og mislíkar Pólverjum gróflega að hvorki Mikhail Gorbachev, Boris Jeltsín né Vladimír Pútín hafi fram að þessu gert nokkuð til að afsaka hermdarverkin heldur ávallt bent á Adolf Hitler sem aðalsökudólginn í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×