Erlent

Telur sig hafa persónutöfra

Ég hef víst persónutöfra sagði Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, í heimsókn sinni til Noregs í dag. Fastafulltrúi Norðmanna hjá Sameinuðu þjóðunum hafði áður gagnrýnt stjórnunarstíl framkvæmdastjórans harðlega og sagt hann gjörsneiddan persónutörfum.

Í trúnaðarbréfi sem Mona Juul, fastafulltrúi Norðmanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sendi til utanríkisráðuneytis Noregs fyrr í mánuðinum gagnrýnir hún Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, harðlega. Í bréfinu, sem leikið var í norska blaðið Aftenposten, segir Juul að Ban skorti bæði leiðtogahæfileika og persónutöfra. Hann fái hvimleið skapofsaköst og ólíklegt sé að hann nái árangri í stærri málum.

Norskir ráðamenn hafa lagt áherslu á að um innanhússbréf hafi verið að ræða og ekki yfirlýsingu frá norskum stjórnvöldum.

Ban Ki-moon kom til Óslóar í dag til fundar við Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra. Við komuna til landsins reyndi hann að heilla landann. „Þúsund þakkir fyrir hlýjar móttökur ykkar," Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna

Helst átti að ræða loftslagsbreytingar við ráðherrana, en eins og kom fram á blaðamannafundinum eftir viðræðurnar hefur minnisblað Juul verið framkvæmdastjóranum ofarlega í huga. Framkvæmdastjórinn sagði mismunandi aðstæður hafa mismunandi áhrif á leiðtoga. Hann hafi sinn stíl og persónutöfra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×