Lífið

Jólaþulir borða konfekt og kaffi

Jólaþulir Guðmundur Benediktsson, Eva María Jónsdóttir, Sigvaldi Júlíusson og Anna Sigríður Einarsdóttir flytja landsmönnum jólakveðjur í dag.  Fréttablaðið/Anton
Jólaþulir Guðmundur Benediktsson, Eva María Jónsdóttir, Sigvaldi Júlíusson og Anna Sigríður Einarsdóttir flytja landsmönnum jólakveðjur í dag. Fréttablaðið/Anton

Guðmundur Benediktsson þulur er einn þeirra sem les upp jólakveðjurnar á Rás 1 í dag. Upplesturinn er orðinn fastur liður í jólaundirbúningi margra landsmanna og hefur kveðjunum rignt inn frá 14. desember, en hætt var að taka á móti kveðjum klukkan fimm í gær. Samkvæmt upplýsingum frá RÚV er fjöldi kveðja svipaður og hefur verið undanfarin ár og því ljóst að þjóðin nýtur þess enn að senda náunganum kveðju á öld sms-skeyta og tölvupósta.

„Ég er búinn að vera að þessu í nokkur ár, en jólakveðjurnar eru auðvitað búnar að vera fastur liður í útvarpinu í nokkra áratugi," segir Guðmundur en upplesturinn hófst klukkan níu í morgun og stendur eitthvað fram á nótt.

„Við erum bundin við þetta allan daginn því þetta er allt tekið í beinni," bætir Guðmundur við en auk hans lesa Sigvaldi Júlíusson, Anna Sigríður Einarsdóttir og sjónvarpskonan Eva María Jónsdóttir jólakveðjur landsmanna.

Guðmundur segir þulina skiptast á að lesa í nokkrar mínútur í senn og viðurkennir að upplesturinn geti tekið á á tíðum.

„Við höldum okkur uppi með því að gúffa í okkur konfekti og drekka kaffi. Sjálfur er ég vel stemmdur fyrir daginn og þetta kemur manni endanlega í jólaskap," segir hann. Vegna vinnu sinnar geta þulirnir ekki geymt jólainnkaupin fram að Þorláksmessu líkt og margir gera og segir Guðmundur að betri helmingurinn verði að ganga í þau verk skyldi eitthvað hafa gleymst. - sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.