Innlent

Tæplega 60 milljarða gjaldeyrisviðskipti til skoðunar

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Mynd/Anton Brink
Heildarfjárhæð þeirra viðskipta sem Seðlabankinn er með til athugunar vegna brota á reglum um gjaldeyrismál er 57,5 milljarður króna. Fjöldi mála og heildarfjárhæðir sem snúa að meintum gjaldeyrissvikum munu aukast umtalsvert þegar fram líða stundir. Þetta kemur fram í svari Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, við fyrirspurn Ásbjörns Óttarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um brot á gjaldeyrisreglum.

Af heildarfjárhæðinni eru tæplega 92% lögaðilar og rúmlega 8% einstaklingar. Ekki er hægt að veita upplýsingar um samsetningu lögaðila eftir atvinnustarfsemi.

„Vert er að nefna að fjöldi mála og heildarfjárhæðir munu aukast umtalsvert þegar fram líða stundir að því er Seðlabankinn telur. Þannig eru um 100 ný mál sem bíða frekari úrvinnslu hjá gjaldeyriseftirliti Seðlabankans. Þau mál sem nú eru til skoðunar hafa auk þess ekki verið fullrannsökuð og því er ljóst að heildarfjárhæð meintra brota á reglum um gjaldeyrismál mun verða umtalsvert hærri," segir í svari Gylfa.

Skoðun Seðlabankans á meintum brotum nær frá setningu gjaldeyrisreglnanna 28. nóvember 2008 til 1. október 2009.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×