Erlent

Dýravinir óánægðir með flugufregnir af Obama

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Fluguskelfirinn og forsetinn Barack Obama.
Fluguskelfirinn og forsetinn Barack Obama.

Dýraverndunarsamtökin PETA (People for the Ethical Treatment of Animals) lýstu í dag yfir óánægju sinni með Barack Obama, forseta Bandaríkjanna. Ástæðan er sú að Obama steindrap flugu sem var að flögra um hann í miðju viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina.

„Við hvetjum til tillitssemi við jafnvel hin smæstu dýr," segir talsmaður PETA. „Við teljum að skordýr eigi að fá að njóta vafans."

PETA hvetur til þess að fólk bandi flugum frá sér frekar en að drepa þær. Samtökin sendu sérstakan mannúðlegan flugufangara til Hvíta hússins svo Obama geti fangað flugurnar og sleppt þeim aftur út í náttúruna í stað þess að drepa þær.

Myndband af flugudrápinu má sjá hér, en þar heyrist þegar fréttamaður CNBC lýsir aðdáun sinni á viðbragðsflýti forsetans og Obama lýsir því sigri hrósandi yfir í kjölfarið að hann hafi neglt fluguaulann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×