Lífið

Boðið í lúxusferð til Indlands

Formleg viðurkenning Ólafur tekur við viðurkenningu úr hendi menntamálaráðherrans Katrínar Jakobsdóttur. Heimildarmynd hans, The Amazing Truth About Queen Raquela, er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.Fréttablaðið/GVA
Formleg viðurkenning Ólafur tekur við viðurkenningu úr hendi menntamálaráðherrans Katrínar Jakobsdóttur. Heimildarmynd hans, The Amazing Truth About Queen Raquela, er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs.Fréttablaðið/GVA

Ólafur Jóhannesson hefur í nógu að snúast vegna kvikmyndarinnar Queen Raquela. Hann er á leið á flotta hátíð á Indlandi.

„Alltaf gaman að hitta menntamálaráðherra sem er yngri en maður sjálfur,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn Ólafur Jóhannes­son sem tók við formlegri viðurkenningu úr hendi Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra að mynd hans, The Amazing Truth About Queen Raquela, væri tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Afhendingin fór fram í húsakynnum menntamálaráðuneytisins í gær. Ólafur er nú á fullu við að klippa kvikmynd sína Laxdælu Lárusar Skjaldarsonar en eins og Fréttablaðið greindi frá fyrir skemmstu verður þeim titli breytt þegar nær dregur frumsýningu.

En að drottningunni Raquelu og heimildarmyndinni um hana sem farið hefur sigurför um heiminn. Myndin verður sýnd á fyrstu samkynhneigðu kvikmyndahátíðinni í Serbíu sem nefnist Merlinka og verður haldin nú um helgina. Samkynhneigðir hafa átt erfitt uppdráttar í Serbíu og Gay Pride-gangan í Belgrad hefur yfirleitt leyst upp í slagsmál þegar öfgahópar hafa ráðist á gönguna. Frægt var þegar einn slíkur öfgahópur hótaði gestum Eurovision fyrir tveimur árum að allir þeir sem opinberuðu samkynhneigð sína yrðu ekki látnir óáreittir.

„En nú er kominn tími til að víkka aðeins út sjóndeildar­hringinn hjá þessu liði,“ segir Ólafur sem kemst því miður ekki til Serbíu til að vera viðstaddur hátíðina en var að vonum ánægður að myndin skyldi rata þarna inn.

En Ólafur ætlar hins vegar að þiggja boð kvikmyndahátíðar í Bombay á Indlandi.

„Já, þetta er einhver svakaleg lúxusferð í fimm daga, allt borgað. Og maður getur ekki sagt nei við slíku,“ segir Ólafur en hann var að vonum ánægður með þá miklu viðurkenningu sem Queen Raquela hefur fengið.

„Þetta er ekki bara einhver ódýr afþreying heldur er þetta saga með fallegan boðskap. Og svo er það líka þannig, að maður er alveg óskaplega hamingjusamur yfir því að hafa rambað á þessa sögu. Krafturinn í Raquelu er svo óskaplega mikill að maður verður einhvern veginn bara fyrir henni.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.