Innlent

Segja það mistök að hætta við málsókn gegn Bretum

Indefence hópurinn hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun á netinu þar sem beitingu laganna er mótmælt.
Indefence hópurinn hefur staðið fyrir undirskriftasöfnun á netinu þar sem beitingu laganna er mótmælt.

Indefence.is hópurinn lýsir yfir miklum vonbrigðum með það að stjórnvöld skuli hafa fallið frá málshöfðun á hendur Breta vegna beitingu hryðjuverkalaga til að frysta eignir bankanna í Bretlandi.

Ástæður þess að stjórnvöld hættu við málsókn eru sagðar kostnaður, sem ku nema um 200 milljónum króna, og að málsóknin væri ekki líkleg til að skila árangri. Þessu vísar hópurinn á bug. Í tilkynningu frá honum segir að kostnaðurinn væri vel innan við 0,1 prósent af væntanlegum skuldbindingum Íslands vegna Icesave reikninganna. Það sé því verið að spara aura, en kasta krónum. Þá segir hópurinn það ekki verið stutt með rökum að málsóknin væri ekki líkleg til árángurs eða að hún gæti stefnt samningaviðræðum um Icesave í hættu.

Hópurinn segir Íslendinga eiga rétt á að málstaður þeirra verði prófaður fyrir dómstólum og hann varinn í alþjóðlegum fjölmiðlum. Heiður þjóðarinnar og gríðarlegir hagsmunir eru að veði. Hann hvetur stjórnvöld til að leita allra lagalegra úrræða til að fá beitingu hryðjuverkalaganna hnekkt. Ennfremur er lagt til að ráðist verði í yfirgripsmikla kynningarherferð á málstað Íslendinga til þess meðal annars að vekja athygli umheimsins á eðli hryðjuverkalaga og hversu skaðleg áhrif vanhugsuð beiting þeirra getur haft.

Í tilkynningunni segir ennfremur:

Margir Íslendingar virðast haldnir sektarkennd og hræðslu í þessu máli, þar sem gefið hefur verið í skyn að ríkisstjórn Breta hafi verið að bregðast við ólöglegum peningafærslum og jafnvel að bankarnir hafi verið viðriðnir peningaþvætti fyrir alþjóðleg glæpasamtök. Þetta er fjarri sanni. Ríkisstjórn Bretlands hefur gefið mjög skilmerkilegar yfirlýsingar um þær ástæður sem lágu að baki lagabeitingum gegn íslensku bönkunum.

Fulltrúi fjármálaráðuneytisins í lávarðadeild breska þingsins, Lord Myners, lýsti því yfir í þingumræðum þann 28. október 2008 að ráðist hafi verið gegn íslensku bönkunum m.a.vegna þess að grunur lék á að íslensk stjórnvöld myndu mismuna breskum sparifjáreigendum og lánadrottnum í skjóli neyðarlaganna. Það sama sagði annar fulltrúi bresku ríkistjórnarinnar, Ian Pearson, í neðri deild þingsins, þann 6. nóvember 2008. Ekkert er vísað í ólöglegar peningafærslur þar, enda þótt slíkar vísbendingar hefðu gert breskum stjórnvöldum mun auðveldara með að réttlæta aðgerðir sínar gegn íslensku bönkunum. Þar af leiðandi blasir það við að grundvöllur beitingar hryðjuverkalaganna var einungis sá að ríkisstjórn Breta taldi sig geta notað þessi umdeildu lög til að vernda fjárhagslega hagsmuni breskra þegna."

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×