Erlent

Breskum blaðamönnum sleppt eftir 40 daga í gíslingu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Colin Freeman og José Cendon.
Colin Freeman og José Cendon. MYND/Reuters

Tveir breskir blaðamenn, sem voru í haldi sómalskra mannræningja í 40 daga, fengu frelsið á ný í gær. Svo kaldhæðnislega vildi til að þeir félagar Colin Freeman og José Cendon, blaðamenn breska blaðsins Telegraph, voru einmitt staddir í Sómalíu til að fjalla um þarlenda sjóræningja, sem margoft hafa komist í heimsfréttirnar undanfarið, þegar þeim var sjálfum rænt af hópi útlaga skammt frá hafnarborginni Boosaasoo.

Síðan eru liðnir 40 dagar og það var loksins í gær sem þeir fengu frelsið á ný. Dögunum 40 eyddu þeir félagar í hrjóstrugu fjalllendi og höfðust við í hellum með föngurum sínum sem að þeirra sögn voru höfðingjar heim að sækja.

Blaðamennirnir segjast fljótlega hafa áttað sig á því að þeim yrði ekki gert mein, hugmyndin væri að reyna að fá einhvern til að greiða lausnargjald fyrir þá. Þetta hafi því verið dálítið eins og bakpokaferðalag þar sem þeir lögðu fréttagetraunir fyrir Sómalana á kvöldin og tefldu skák við þá. Eins hafi maturinn verið mun hollari en þeir áttu að venjast.

Þeir óttuðust þó um líf sitt þegar aðrir ræningjahópar reyndu að ræna ræningjana þeirra en þá segja þeir iðulega hafa komið til skotbardaga. Á jóladag fengu blaðamennirnir pönnukökur og þrjár sígarettur aukalega og segja skilið við ræningjana bara nokkuð sáttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×