Lífið

Tjúttað á fullu um jólin

Halda uppi stuði um jólin
FM Belfast og Retro Stefson sameinast á Nasa, Bubbi verður á sínum stað á Þorláksmessu, Páll Óskar breytir Nasa í Stúdíó 54, Haukur Heiðar í Diktu verður á Sódómu og Bogomil Font tekur upp þráðinn með Millunum.
Halda uppi stuði um jólin FM Belfast og Retro Stefson sameinast á Nasa, Bubbi verður á sínum stað á Þorláksmessu, Páll Óskar breytir Nasa í Stúdíó 54, Haukur Heiðar í Diktu verður á Sódómu og Bogomil Font tekur upp þráðinn með Millunum.

Tónleika- og skemmtanalífið í Reykjavík fer ekki í frí nema rétt yfir blájólin. Það er hellingur í gangi á Þorláksmessu og svo byrjar stuðið strax aftur á annan í jólum.

Þorláksmessan hefur löngum verið vinsælt kvöld til tónleikahalds. Að sjálfsögðu eru Þorláksmessutónleikar Bubba Morthens gamalgrónasti viðburðurinn, en hann heldur þessa tónleika nú í 25. skipti í Háskólabíói. Tónleikarnir verða sýndir í beinni á Stöð 2 og Bubbi ætlar ekkert að slá af heldur rífa kjaft ef hann er í þannig skapi.

Bubbi var löngum í beinni á Rás 2 en í ár sér Buffið um Þorláksmessustuðið þar. Tónleikarnir verða sendir beint frá skemmtistaðnum Sódómu og Buffið fær til sín ýmsa gesti, meðal annars Magnús Eiríksson, Helgu Möller, Hauk Heiðar úr Diktu og þrjár raddir og Beatur.

Í Fríkirkjunni heldur hljómsveitin Árstíðir hátíðartónleika. Hljómsveitin mun flytja lög af breiðskífunni sem hún gaf út á árinu í nýjum útsetningum auk vel valinna jólalaga í félagi við góða vini.

Diskó og Millaball
Í ár kemur annar í jólum upp á laugardegi og því verður skellt í djammgírinn um leið og síðasti malt og appelsínsopinn verður kominn niður. Diskókóngurinn Páll Óskar hyggst breyta vígi sínu Nasa í hið sögufræga Studio 54 í New York. Hann lofar risastórri sviðsmynd, brjáluðum skreytingum og flottasta ljósasjóvi sem sést hefur í húsinu. Sérstakir heiðursgestir verða diskódúettinn Þú og ég. Ballið stendur frá kl. 23.59 til 05.30 á sunnudagsmorguninn, en forsala miða er á Nasa frá kl. 13 til 17 á annan í jólum.

Lítið hefur farið fyrir Milljónamæringunum upp á síðkastið, en á annan í jólum snýr hljómsveitin aftur og verður með ball á Hótel Sögu. Píanóleikarinn Kjartan Valdimarsson hefur tekið við stöðu Karls Olgeirssonar, sem er flúinn til Svíþjóðar. Til söngs verða að þessu sinni hafðir „upprunalegi þverhausinn“, Bogomil Font, Ragnar „hinn fullþroska“ Bjarnason og látúnsbarkinn Bjarni Arason. Bandið tekur til við taktinn upp úr miðnætti og verða miðar á ballið seldir fyrr um daginn á Hótel Sögu. Rokk og raf
Þá er það rokkið og hippið og kúlið. Weirdcore kvöld verður haldið á Jacobsen á Þorláksmessu. Verið er að fagna annarri Weirdcore-safnplötunni sem hægt verður að sækja frítt á netið. Þrjú raftónlistar­bönd koma fram: Future­grapher, Quadruplos og Biogen.

Á annan í jólum heldur rafstuð­sveitin Sykur útgáfutónleika á Batteríinu fyrir frumraun sína Frábært eða frábært sem kom út í haust. Berndsen sér um upphitun. Sama kvöld verður hljómplötuútgáfan Kölski með jóla­hátíð á Sódómu. Fram koma Dikta, Ourlives, Agent Fresco og Vicky. Þá verður gamalt Party zone stuð frá 1990 til 1995 rifjað upp með trítilóðum plötusnúðum á annan í jólum á Jacobsen.

Síðasti sjens – Litlu áramótin verða haldin á Nasa 30. desember og fram undir morgun á gamlársdag. Tvær af öflugustu sveitum Klakans í dag, FM Belfast og Retro Stefson, ætla þar að trylla mannskapinn með æsandi músík.

Svo tekur bara gamlárskvöld við með öllum sínum djammæsingi. Alveg nóg að gera fyrir djammara, sem sé.drgunni@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.