Lífið

Rappsöngkona vann Mercury

speech debelle Debelle hlaut hin virtu Mercury-verðlaun á dögunum og kom útnefningin mörgum í opna skjöldu.
nordicphotos/getty
speech debelle Debelle hlaut hin virtu Mercury-verðlaun á dögunum og kom útnefningin mörgum í opna skjöldu. nordicphotos/getty

Rappsöngkonan Speech Debelle frá London hlaut hin virtu Mercury-tónlistarverðlaun á dögunum. Mörgum kom útnefningin í opna skjöldu enda Debelle óþekkt nafn í tónlistarbransanum. Skákaði hún þekktum flytjendum á borð við Kasabian, Glasvegas og La Roux sem voru einnig tilnefnd. Debelle, sem er 26 ára, átti aftur á móti von á sigrinum.

„Ég er sannfærð um að ég eigi eftir að vinna," sagði hún degi fyrir verðlaunahátíðina. Bætti hún kokhraust við að fimm Grammy-verðlaun væru næst á dagskrá.

Áður en Debelle var tilnefnd til Mercury-verðlaunanna í júlí hafði plata hennar Speech Therapy aðeins selst í um 1.500 eintökum í Bretlandi. Núna hefur talan væntanlega hækkað upp úr öllu valdi.

Hún hefur sjálf lýst plötunni sem hip hop-útgáfu af Tracy Chapman, sem sló í gegn á níunda áratugnum með lögunum Fast Car og Talkin "Bout a Revolution.

Debelle fæddist í hverfinu Crystal Palace í suðurhluta London. Hún lenti ítrekað í vandræðum í skólanum og hætti að lokum. Eftir það fór hún að nota eiturlyf og var henni í framhaldinu hent út á götuna af móður sinni. Aðeins nítján ára tók harður heimur við og þurfti hún að gista á ódýrum farfuglahótelum og hjá vinum. Mörg lög á Speech Therapy fjalla um það sem hún hefur gengið í gegnum, þar á meðal heimilisleysið, fjarverandi föður og kynni sín af glæpum og leiðinlegum störfum.

Núna eru Debelle allir vegir færir og ætlar hún að nota Mercury-verðlaunaféð, sem nemur rúmum fjórum milljónum, til að stofna sitt eigið útgáfufyrirtæki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.