Innlent

Skiptar skoðanir um kynjahlutföll innan Samfylkingar

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir

Fulltrúaráð Samfylkingarinnar í Reykjavík hafnaði tillögu um að kjósa þyrfti jafnan hlut kynjanna í prófkjöri. Tillagan var lögð fyrir á fundi sl. mánudag. Sama dag sendi Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir félagsmálaráðherra og samfylkingarkona bréf til forsvarsmanna stjórnmálaflokkanna með tilmælum um að tryggja jafnræði kynjanna við uppröðun á listum fyrir komandi alþingiskosningar.

Þorbjörn Guðmundsson formaður fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík sagðist ekki hafa áhyggjur af því að 50 prósent reglan hefði ekki verið samþykkt. Þorbjörn sagði líklegra að listinn samanstæði eingöngu af konum heldur en körlum. Það væri hefð fyrir því í Reykjavík að kjósendur raði kynjunum jafnt á lista. Hins vegar hefði uppstillingarnefnd lokaorðið og hún eigi að sjá til þess að hlutur kvenna vaxi.

Að sögn Þorgerðar Jóhannsdóttur skrifstofustjóra Samfylkingarinnar er reglan sú að ákvörðun um prófkjörsreglur séu alfarið í höndum kjördæma- og fulltrúaráðanna. Þannig hafi kjördæmaráð Norðaustur kjördæmis hafnað tillögu um jafna kynjaskiptingu í tvö efstu sætin. Hins vegar hafi kjördæmaráð Suðurlands samþykkt að setja reglu um jafna skiptingu kynjanna í tvö efstu sætin og 40/60 prósent reglu um sætin á eftir. Önnur kjördæmaráð eigi eftir að ákveða sínar reglur. Í lögum Samfylkingarinnar sé aftur á móti skýr regla um 60/40 prósent skiptingu kynjanna á lista.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×