Innlent

Seðlabankastjórum verður fækkað í einn

„Ég á ekki von á að það verði breyting á þeim grundvallaratriðum frumvarpsins að fækka seðlabankastjórum úr þremur í einn og koma á fót peningastefnunefnd," segir Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar Alþingis. Hún gerir ráð fyrir að nefndin ljúki umfjöllun fyrir helgi. Eftir það verður málið tekið til annarrar umfjöllunar í þinginu. Álfheiður segir að það hafi borist margar góðar ábendingar og athugasemdir sem tekið verður tillit til. Meðal annars að menntunarkröfurnar í frumvarpinu væru of þröngar.

Álfheiður á von á því að seðlabankastjórar láti af störfum þegar að frumvarpið verður samþykkt. „Þegar að þetta frumvarp verður að lögum þá verða, samkvæmt bráðabirgðaákvæðum í frumvarpinu, stöður þriggja seðlabankastjóra felldar niður. Þar á meðal er staða formanns bankastjórnar," segir Álfheiður. Hún segir að í frumvarpinu séu jafnframt ákvæði um það hvernig fara eigi með málin þangað til búið er að ráða nýjan. „Það verður bara auglýst strax," segir Álfheiður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×