Innlent

Tapaði meiðyrðamáli vegna meintra rassskella

Leiðbeinandi í Vinnuskóla Reykjavíkur tapaði meiðyrðamáli vegna uppsagnabréfs í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Leiðbeinandi í Vinnuskóla Reykjavíkur tapaði meiðyrðamáli vegna uppsagnabréfs í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Reykjavíkurborg og aðstoðarskólastjóri Vinnuskóla Reykjavíkur voru sýknuð af meiðyrðarkröfu rúmlega fimmtugs manns vegna uppsagnarbréfs í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Maðurinn hafði verið sakaður um kynferðislega áreitni sem leiðbeinandi í vinnuskólanum árið 2005. Þá var því haldið fram að hann hafi átt til að snerta stúlkur á óæskilegum stöðum til þess að koma þeim af stað til vinnu, til að mynda með því að rassskella þær. Þá var hann jafnframt sakaður um að hafa ýtt undir rassinn á nokkrum stúlknanna þar sem þær voru að klifra á Ásmundarsafni í fræðsluferð sumarið 2003.

Eftir að málið komst upp þá fékk maðurinn uppsagnarbréf frá skólanum sem í stóð:

„Ástæða uppsagnarinnar hefur verið kynnt þér en hún snýst um óásættanlega hegðun við kvenkyns nemendur skólans. Frá nemendum í þremur árgöngum skólans hefur yfirstjórn hans borist frásagnir af ítrekuðum snertingum þínum við stúlkur sem eru klárlega á skjön við það sem getur talist eðlileg hegðun leiðbeinanda á vinnustað."

Maðurinn hélt fram sakleysi sínu en viðurkenndi að hafa snert krakkana, þá einungis með þeim hætti að taka um axlir þeirra eða eitthvað í þeim dúr, eins og hann orðaði það. Hann heimtaði að nafn sitt yrði hreinsað og úr varð að málinu var vísað til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Rannsókn leiddi í ljós að ekki þótti ástæða til þess að ákæra manninn fyrir meinta háttsemi, hún hafi í það minnsta ekki verið saknæm.

Það var svo nú í ár sem maðurinn vildi hreinsa nafn sitt og fór í meiðyrðamál vegna uppsagnabréfsins við borgina og aðstoðarskólastjóra vinnuskólans, sem sendi honum bréfið. Borgin og aðstoðarskólastjórinn voru sýknaðir af kröfu fyrrum leiðbeinandas en í dómsorði segir:

Í bréfinu er því aðeins verið að vísa til frásagna sem yfirstjórn vinnuskólans hafði borist af ítrekuðum snertingum stefnanda sem sé hegðun sem að mati stjórnenda skólans sé óásættanleg og felst ekki í orðum þessum ærumeiðing eða refsiverð aðdróttun samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum almennra hegningarlaga.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×