Innlent

Stórþjófnaður úr Vínbúðinni í Hveragerði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vínbúð. Mynd/ Anton Brink.
Vínbúð. Mynd/ Anton Brink.
Talið er að þjófar hafi haft á brott með sér um átta til níu kassa af sterku áfengi þegar þeir brutust inn í Vínbúðina í Hveragerði í nótt. Lögreglunni á Selfossi bárust boð um klukkan hálfeitt í nótt um að brotist hafi verið inn í Vínbúðina sem er til húsa hjá N1 við Breiðumörk. Þegar lögregla kom á staðinn voru dyr verslunarinnar opnar og ljóst að brotist hafði verið þar inn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni sést á öryggismyndavélum hvar tveir menn komu að húsinu og spenntu upp hurð á lager. Síðan komu þrír menn til viðbótar sem fóru inn. Mennirnir huldu allir andlit sitt og voru með hanska á höndum. Slóð þjófanna var rakin að Suðurlandsvegi þar sem þeir höfðu lagt bifreið, sem þeir höfðu verið á, meðan þeir fóru í innbrotið. Þrátt fyrir leit og eftirgrennslan fannst bifreiðin ekki.

Lögreglan biður alla þá sem veitt hafa athygli bifreið vestan við hringtorgið á Suðurlandsvegi við Hveragerði á tímabilinu frá kl. 00:00 - 00:35 að hafa samband í síma 480 1010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×