Innlent

Biður lögreglumenn ekki afsökunar

Álfheiður Ingadóttir.
Álfheiður Ingadóttir.

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, sér ekki ástæðu til að biðja lögreglumenn afsökunar á ummælum sem eftir henni voru höfð í búsáhaldabyltingunni í byrjun þessa árs. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, spurði Álfheiði út í málið á þingfundi í dag. Hann vildi að Álfheiður bæði lögreglumenn afsökunar á ummælum sínum þar sem hún gaf í skyn að lögregla færi fram með of miklu harðræði og væri að hefna sín á mótmælendum. Lögreglumenn hafi orðið fyrir aðkasti og þeim veittir áverkar.

„Það að vera kjörinn á þing tekur ekki af mönnum stjórnarskrárvarinn rétt til þess að lýsa skoðunum sínum hvort heldur í orði eða með þátttöku í friðsamlegum mótmælum. Friðsamleg mótmælum vegna þess að sú sem hér stendur hefur ekki beint neinu ofbeldi með þáttöku í mótmælaaðgerðum og hefur þvert á móti fordæmt ofbeldi og ég vitna til ályktunar þingflokks Vinstri grænna af þessu sama tilefni í fyrra," sagði Álfheiður.

Álfheiður benti að mótmælendur hefðu myndað skjaldborg í kringum lögreglumenn þegar ótíndir glæpamenn sem töldu sig eiga einhverja harma að hefna við lögregluna og notuðu tækfærið undir yfirskyni mótmæla til þess að veitast að lögreglumönnum í þeim tilgangi að meiða.

„Ég vil taka fram að ég tel að þeir sem hafi hlotið einhver meiðsl af þessu eða öðru eigi að nýtan allan þann rétt sem þeir hafa til að sækja bætur og leiðréttingu sinna mála hvort heldur þeir eru í lögreglunni eða utan hennar," sagði Álfheiður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×