Erlent

Kínverskir andófsmenn á geðveikrahæli

Óli Tynes skrifar
Hlið hins himneska friðar í Peking.
Hlið hins himneska friðar í Peking.

Andófsmenn í Kína sem krefjast mannréttinda eru lokaðir inni á geðveikrahælum í stórum stíl, að sögn fréttaritara Sky fréttastofunnar í Kína.

Þar eru þeir pyntaðir með raflostum og gefin sterk geðlyf.

Peter Sharp fréttamaður Sky talaði meðal annars við Ho Guohong sem kom til Peking til þess að leita réttar síns eftir að hann hafði ekki fengið greidd laun í þrjá mánuði.

Hann var lokaður inn á geðdeild og pyntaður með raflostum í tvo tíma á dag í tíu daga samfleytt.

Sky tókst að komast inn á eitt geðveikrahælið og tala þar við fólk sem sagði að margt af því hafi aldrei verið sjúkdómsgreint. Þar væri allskonar fólk, en margt af því væri alls ekki geðveikt.

Sky náði einnig næturfundi með lögfræðingi sem á hundruð skjólstæðinga sem hafa verið lokaðir inni.

Hann er undir eftirliti lögreglunnar og segir að það sé orðinn faraldur í Kína að loka fólk inni á geðveikrahælum til þess að þagga niður í því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×