Innlent

Var hótað vegna Papeyjarmálsins

Jónas Árni Lúðvíksson, einn af sex sakborningum í svokölluðu Papeyjarmáli, segir að honum hafi borist hótanir vegna smyglmálsins þegar hann varð laus úr einangrunarvist í fangelsinu. Menn sem hafi komið að skipulagningu smyglsins hafi sagt honum að honum væri hollast að hafa hljótt um málið. Þetta kom fram í máli Jónasar við aðalmeðferð í morgun.

Þegar upp komst um smyglið á 109 kílóum af fíkniefnum í apríl síðastliðnum voru þrír menn handteknir á Íslandi en þrír menn voru teknir þegar þeir reyndu að flýja á skútunni Sirtaki. Jónas var einn þeirra sem var handtekinn í landi. Jónas játaði aðild að málinu en segist hafa talið að um stera væri að ræða en ekki fíkniefni. Jónas var ítrekað spurður að því í morgun hver hefði haft það hlutverk að afhenda fíkniefnin úr bátnum. Jónas sagði að vegna þessa hótana sem hann hefði fengið myndi hann ekki tjá sig um það. Þá sagði Jónas að það hefði komið honum á óvart um hve mikið af fíkniefnum væri að ræða.

Eins og fréttastofa hefur þegar greint frá er götuvirði fíkniefnanna sem um ræðir um hálfur milljarður íslenskra króna, miðað við verðkönnun SÁÁ á fíkniefnum frá því í vor. Um var að ræða amfetamín, kannabisefni og alsælutöflur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×