Erlent

Alnæmisfaraldur leggur færri að velli

Skýrslan kynnt Michel Sidibe, framkvæmdastjóri Alnæmisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sýnir eintak af nýrri skýrslu um ástand alnæmisfaraldursins.fréttablaðið/AP
Skýrslan kynnt Michel Sidibe, framkvæmdastjóri Alnæmisstofnunar Sameinuðu þjóðanna, sýnir eintak af nýrri skýrslu um ástand alnæmisfaraldursins.fréttablaðið/AP

Undanfarin tvö ár hefur fjöldi HIV-smitaðra í heiminum staðið nokkurn veginn í stað, í rúmum 33 milljónum. Dauðsföllum af völdum alnæmisveirunnar hefur fækkað um tíu prósent undanfarin fimm ár.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og Alnæmisstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Samkvæmt útreikningum sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna er talið að á síðasta ári hafi 33,4 milljónir manna verið með HIV-smit, en árið áður var þessi tala 33,2 milljónir. Útreikningarnir eru að vísu byggðir á stærðfræðilíkani og skekkjumörkin eru nokkrar milljónir.

Ástæðan fyrir því að heldur hefur fjölgað í hópi smitaðra er einkum talin vera sú að dauðsföllum hefur fækkað.

Alls er talið að nærri sextíu milljónir manna hafi smitast af HIV-veirunni frá því hún komst fyrst á kreik fyrir tæpum þremur áratugum. Um 25 milljónir þeirra hafa látist af orsökum sem tengjast veirunni.

Síðan árið 1996 hefur tekist að bjarga 2,9 milljónum mannslífa með lyfjameðferð, en það ár komu fyrst á markað lyf sem vinna bug á sjúkdómnum. Auk þess hefur dregið úr nýsmiti um sautján prósent undanfarin átta ár.

Sumir sérfræðingar telja þó að faraldurinn sé hugsanlega í rénun einfaldlega vegna þess að veiran sé komin á leiðarenda, frekar en að inngripum læknavísindanna sé að þakka.

Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar staðfest að faraldurinn sé víða í rénun. Þá eru auk þess farnar að heyrast raddir um að breyta þurfi forgangsröðun þegar fjárstuðningi er úthlutað.

Talið er að fjögur prósent allra dauðsfalla í heiminum verði af völdum alnæmis, en 23 prósentum allra heilbrigðisútgjalda er með einum eða öðrum hætti varið í baráttuna gegn alnæmi.

„Við eigum ekki að láta þennan eina sjúkdóm skekkja alla alþjóðlega fjármögnun lengur, ekki síst þegar miklu auðveldara og ódýrara er að lækna mjög mannskæða sjúkdóma í þróunarlöndunum á borð við lungnabólgu og niðurgang,“ segir Philip Stevens, sérfræðingur hjá International Policy Network, sem er hugmyndaveita í London.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×