Erlent

Verðum að handtaka eða drepa bin Laden

Óli Tynes skrifar
Stanley McChrystal, hershöfðingi.
Stanley McChrystal, hershöfðingi.

Stanley McCrystal yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Afganistan kom í gær fyrir þingnefnd til þess að gera grein fyrir gangi mála í landinu.

Hann sagði þar meðal annars að tvö mikilvægustu verkefnin væru að stöðva framsókn talibana og handtaka eða drepa Osama bin-Laden.

Það svíður að bin Laden skuli enn ganga laus átta árum eftir innrásina í Afganistan, sem gerð var eftir árás hans á Bandaríkin.

McChrystal sagði að það jafngilti ekki sigri á Al Kaida að ná til hryðjuverkamannsins. Hinsvegar væri ekki hægt að sigra Al Kaida fyrr en búið væri að handtaka hann eða drepa.

Um talibana sagði hershöfðinginn að ekki væri stefnt að því að einfaldlega drepa þá alla. Markmiðið væri að draga svo úr hernaðarmætti þeirra að afganskar öryggissveitir gætu haldið þeim í skefjum þegar Bandaríkin hefja heimflutning hermanna sinna í júlí árið 2011.

Þeir myndu þá smámsaman hverfa af sjónarsviðinu.

Talið er að Osama bin Laden sé í felum einhversstaðar í fjöllunum á landamærum Afganistans og Pakistans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×