Innlent

Níu lögreglumenn krefjast skaðabóta af íslenska ríkinu

Helga Arnardóttir skrifar
Lögregluþjónar að störfum í mótmælum. Mynd/ Vilhelm.
Lögregluþjónar að störfum í mótmælum. Mynd/ Vilhelm.
Níu lögreglumenn krefjast skaðabóta af íslenska ríkinu vegna áverka sem þeir hlutu í mótmælunum og óeirðunum í miðbæ Reykjavíkur síðastliðinn vetur. Að minnsta kosti þrír þeirra eru metnir með varanlega örorku.

Fjöldi lögreglumanna stóð vaktina í mótmælunum í miðbænum síðastliðinn vetur. Nokkrir þeirra hlutu töluvert alvarllega líkamsáverka. Einn fékk gangstéttarhellu í höfuðið, kinnbeinsbrotnaði og var fluttur meðvitundarlaus á slysavarðsstofu. Meiðsl hans reyndust ekki eins alvarleg og útlit var í fyrstu segir Gylfi Thorlacius lögmaður lögreglusambandsins. Sá sem hlaut alvarlegustu meiðslin meiddist á hendi en hann var bitinn í átökunum og við það skemmdist taug. Þá var einn lögreglumaður sem lenti í átökum inni í þinghúsinu og hlaut áverka á hendi, fæti og baki. Sá er metinn með varanlega örorku en er enn við störf. Gylfi útilokar ekki að fleiri lögreglumenn krefjist skaðabóta.

Lögreglumenn eru með slysatryggingu og ef tjónið er meira en sú trygging nær yfir geta þeir farið fram á skaðabætur frá íslenska ríkinum samkvæmt skaðabótalögum. Ef upplýsist um tjónvaldinn þá getur ríkið endurkrafið hann um bæturnar. Búið er að gera upp fimm af þessum málum. Gylfi segir mál af þessu tagi vera aukast ár frá ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×