Innlent

Á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi

Maðurinn sem eyðilagði íbúðarhús á Álftanesi í gær á yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi. Frjálsi fjárfestingarbankinn sem nú á húsið ætlar að kæra hann.

Húsið stendur við Hólmatún 44 á Álftanesi og var byggt árið 2003. Áður en bankinn leysti húsið til sín var það í eigu einkahlutafélagsins Sun House sem flytur inn finnsk einingarhús. Björn Mikkaelsson sem er stjórnarmaður í fyrirtækinu bjó í húsinu. Frjálsi fjárfestingarbankinn leysti húsið til sín á síðasta ári og seldi húsið á nauðungaruppboði. Fyrir skömmu fékk Björn svo tilkynningu um að bera ætti hann út. Hann lýsti því sjálfur í samtali við fréttastofu að hann hafi engu haft að tapa og því rifið húsið, meðal annars til að vekja athygli á veikum rétti sínum sem skuldara.

Ingólfur Friðjónsson, framkvæmdastjóri Frjálsa fjárfestingarbankans sem á húsið, segir að málið verði kært til lögreglu. Brotið varði við hegningarlög en stórfelld eignaspjöll á eigum annarra geta varðað allt að sex ára fangelsi. Ingólfur áætlar að tjónið sé ríflega fjörtíu milljónir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×