Lausafjárkreppan hefur ekki bitið Simon Cowell í rassinn ef marka má síðustu fréttir. Ólíkt íslensku auðjöfrunum, sem hafa frestað velflestum byggingaframkvæmdunum, þá stendur Simon í stórræðum. Hann hyggst nefnilega eyða 14,5 milljónum dollara eða ríflega einum milljarði í piparsveinshús sitt. Það á að vera staðsett í Karíbahafinu og hyggst Simon bjóða þangað hugsanlegum ástkonum sínum en hann hefur sjaldan verið við eina fjölina felldur.
Simon sagði nýverið skilið við kærustu sína til nokkurra ára, Terri Seymour og ákvað af því tilefni að eyða jólum og áramótum með gamalli kærustu, poppstjörnunni Sinitta. Sú veisla var haldin í gamla húsinu hans sem einnig er við Karíbahafið en það nýja á að taka öllu fram. „Simon dregur ekkert úr glamúrnum og ætlar að hafa heimilið sem allra glæsilegast,“ segir heimildarmaður Daily Mail sem greindi frá þessum væntanlegum framkvæmdum Idol-stjörnunnar í gær.