Innlent

Stálu skammbyssu og flatskjáum

Mennirnir stálu þremur flatskjáum og skammbyssu úr sumarbústöðum.
Mennirnir stálu þremur flatskjáum og skammbyssu úr sumarbústöðum.

Sex ungmenni hafa verið ákærð fyrir fjölmörg innbrot og þjófnaði í umdæmi lögreglustjórans á Selfossi. Um er að ræða fimm unga menn og eina stúlku á aldrinum 18 til 22 ára.

Tveir mannanna eru ákærðir fyrir innbrot í Árborg í Árnesi. Þar stálu þeir varningi fyrir 660 þúsund krónur auk símakorta en verðmæti þeirra er óþekkt.

Einn mannanna og stúlkan eru ákærð fyrir að hafa í fórum sínum hluta þýfisins úr Árborg.

Einn mannanna er svo ákærður fyrir innbrot í bílskúr á Selfossi. Þar stal hann fjórum kössum af Bratz-leikfangadúkkum, fjórum kössum af hraunlömpum og ferðatösku.

Fjórir úr hópnum eru ákærðir fyrir innbrot í tvö sumarhús í Hrunamannahreppi þar sem þeir létu greipar sópa. Þeir stálu meðal annars þremur sjónvarpsflatskjáum, leikjatölvu, iPod hátalara, tveimur sængum og skammbyssu.

Loks er einn mannanna ákærður fyrir vopnalagabrot. Heima hjá sér var hann með heimatilbúna sveðju með rúmlega 60 sentimetra löngu blaði, heimatilbúinn hníf með 26 sentimetra löngu blaði og heimatilbúna gaddakylfu.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×