Innlent

Brutust inn með klaufjárni

Kennsla í Waldorf­skóla var með hefðbundnum hætti í gær, þrátt fyrir skemmdir eins og sjá má á myndinni.
Kennsla í Waldorf­skóla var með hefðbundnum hætti í gær, þrátt fyrir skemmdir eins og sjá má á myndinni.

 Piltarnir þrír sem kveiktu í skólastofu í Waldorf­skóla brutust inn í hann með klaufjárni.  Missagt var í Fréttablaðinu í gær að þeir hefðu verið nemendur í Waldorfskóla. Hið rétta er að þeir hafa verið nemendur í Fellaskóla. Í þeim skóla gerðu þeir ráðstafanir til þess að komast inn eftir að allir voru farnir heim, með því að troða bréfi í dyralæsingu. Þeim tókst ekki að kveikja í skólahúsnæðinu, þrátt fyrir nokkrar tilraunir, þar sem öryggisvörður varð eldsins var áður en hann náði að breiðast út.

Síðan héldu þeir í Waldorf­skólann, eftir að hafa útvegað sér bensín hjá kunningja í millitíðinni. Þar brutust þeir inn og tókst að kveikja í. Það gerðu þeir með því að hlaða köst úr auðbrennanlegu efni, svo sem pappír, á gólf kennslustofu. Síðan báru þeir eld að.

Kennsla var með hefðbundnum hætti í Waldorfskóla í gær.

Þá er rétt að fram komi að upplýsingar um piltana í Fréttablaðinu í gær voru ekki komnar frá Snorra Traustasyni, kennara í Waldorf­skóla, heldur einungis það sem sneri að íkveikjunni sjálfri og skemmdum af völdum hennar.

Málið er enn í rannsókn hjá lögreglu.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×