Erlent

Tugir manna fylgdu Estemirovu til grafar

Baráttukona Syrgð Um hundrað manns komu saman fyrir utan skrifstofur mannréttindasamtakanna Memorial í Moskvu.Nordicphotos/AFP
Baráttukona Syrgð Um hundrað manns komu saman fyrir utan skrifstofur mannréttindasamtakanna Memorial í Moskvu.Nordicphotos/AFP

Rússneska baráttukonan Natalía Estemirova var borin til grafar að múslimskum sið í Grosní, höfuðborg Téténíu, daginn eftir að hún var myrt.

Bæði Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti og Ramzan Kadyrov, forseti Téténíu, sögðust í gær sannfærðir um að morðingjar Estemirovu myndu finnast og yrðu dregnir fyrir dóm.

Medvedev sagði hana hafa verið myrta vegna rannsókna hennar á mannránum, morðum og fleiri mannréttindabrotum í Téténíu, en vísaði því á bug að Kadyrov ætti þar einhvern hlut að máli.

Estemirova hafði árum saman unnið að því að rannsaka mannréttindabrot bæði rússneskra og téténskra stjórnvalda í hinu stríðshrjáða lýðveldi Téténíu og samstarfsfólk hennar sakar bæði Kadyrov og Vladimír Pútín forsætisráðherra um að tengjast láti hennar. Hún var myrt samdægurs og skýrsla var birt þar sem settar eru fram harðar ásakanir á hendur bæði rússneskum stjórnvöldum og stjórnvöldum í Téténíu.

Irene Khan, framkvæmdastjóri mannréttindasamtakanna Amnesty International, segir morðið vera afleiðingar refsileysis sem stjórnvöld láti viðgangast. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, áréttaði við Medvedev í München í gær að mikilvægt væri að þeir seku næðust. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×