Innlent

Actavis gefur ekki upp hvort það bjóði

Formaðurinn skoðar gögn. Actavis hefur hvorki sagt af né á hvort það hafi boðið í þýska lyfjafyrirtækið Ratiopharm.Fréttablaðið/Heiða
Formaðurinn skoðar gögn. Actavis hefur hvorki sagt af né á hvort það hafi boðið í þýska lyfjafyrirtækið Ratiopharm.Fréttablaðið/Heiða

Lyfjafyrirtæki frá Ísrael, Frakklandi og Kína eru sögð kunna að eiga hæstu boð í þýska samheitalyfjafyrirtækið Ratiopharm, að sögn fréttastofu Reuters. Fréttastofan segir líklegasta kaupandann horfa til þess að nema ný markaðssvæði með kaupum á fyrirtækinu, ekki síst í Þýskalandi.

Félag í eigu hinnar þýsku Merckle-fjölskyldu sem á Ratiopharm hefur um ár glímt við alvarlegan skuldavanda eftir mislukkaðar fjárfestingar fjölskylduföðurins, Adolf Merckle. Hann svipti sig lífi skömmu eftir síðustu áramót þegar hann gerði sér grein fyrir því hvert stefndi.

Áhugasöm lyfjafyrirtæki lögðu fram tilboð í fyrirtækið í fyrstu lotu í nóvember og var Actavis sagt vera á meðal þeirra þá. Frestur til að skila inn tilboðum í annarri lotu lauk í síðustu viku. Þýski bankinn Commerzbank og Royal Bank of Scotland sjá um tilboðsferlið, en lágmarksverð er ekki undir tveimur milljörðum evra, samkvæmt heimildum Reuters. Það er um milljarði evra lægra en Merckle-fjölskyldan vænti að fá.

Ekki fengust svör við því hvort Actavis væri í slagnum, þegar eftir var leitað í gær. Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis, sagði í samtali við Fréttablaðið í síðasta mánuði slíkt venju sem fyrirtækið héldi. Þess ber þó að geta að Ratiopharm er álíka stórt fyrirtæki og Actavis.- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×