Innlent

Bráðabirgðaáhættumat IFS kynnt fjárlaganefnd

Guðbjartur Hannesson.
Guðbjartur Hannesson.

Á fundi fjárlaganefndar í kvöld var farið yfir bráðbirgðaráhættumat frá IFS Greiningu á Icesave samningnum. Að sögn Guðbjarts Hannessonar formanns nefndarinnar hafði verið óskað eftir því að slíkt mat yrði unnið og féllst meirihlutinn á það en þó með þeim formerkjum að það myndi ekki tefja afgreiðslu málsins. Endanleg skýrsla IFS Greiningar kemur á Þorláksmessu en að sögn Guðbjarts er þó enn möguleiki á því að málið verði afgreitt úr nefndinni á morgun.

Guðbjartur segir að niðurstöður skýrslunnar varpi engu nýju ljósi á Icesave-málið, frekar en önnur gögn sem borist hafi nefndinni. „Þarna er fyrst og fremst verið að meta áhrif þátta sem geta haft áhrif á það hversu auðvelt eða erfitt verði að borga Icesave þegar þar að kemur. Einnig er verið að skoða áhrif þeirra efnahagslegu fyrirvara sem settir voru í málinu."

Guðbjartur segir að þetta staðfesti það sem áður hafi komið fram, að ákveðið öryggi sé í efnahagslegu fyrirvörunum. „Síðan má ekki gleymast að við getum alltaf borgað meira ef þannig stendur á auk þess sem við getum alltaf greitt upp lánið ef betri kjör bjóðast."

Að sögn Guðbjarts hefur því lítið breyst í málinu eftir að fjárlaganefnd fékk meiri upplýsingar á borð við skýrsluna frá IFS Greiningu og lögfræðiálit frá Mischon de Reya. „Eftir stendur að taka ákvörðun um hvað er best í stöðunni, að ljúka þessu núna, reyna að fara enn til að ná betri samningum eða gera ekki neitt og taka áhættuna af því."

Að sögn Guðbjarts verður það metið síðar í kvöld hvort málið verði klárað úr nefndinni á morgun eða hvort menn bíði fram til Þorláksmessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×