Innlent

Fimm ára fangelsi fyrir að stinga bróður sinn

Ingi Páll Eyjólfsson, 21 árs gamall, var dæmdur í fimm ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að hálfbróður sínum, þann 25. nóvember síðastliðinn, og stungið hann með hníf í bak og öxl með þeim afleiðingum að hann hlaut töluverð meiðsl.

Í dómnum kemur fram að um kvöldið 25. nóvember síðastliðins hittust ákærði og hálfbróðir hans á Hlemmtorgi. Höfðu þeir áður talast við í síma og mælt sér mót en það símtal var ekki vinsamlegt.

Þegar þeir svo hittust kastaðist enn í kekki með þeim. Ingi Páll var með oddhvassan hníf á sér, sem hann hafði tekið heima hjá vinkonu sinni þá skömmu áður. Réðst hann að bróður sínum og stakk hann tvisvar sinnum með hnífnum.

Kom annað hnífslagið ofarlega í bakið á honum, gekk þar á hol í gegn um vinstra herðablað og langt inn í lunga. Hin stungan kom í vinstri öxlina og gekk þar inn í vöðva. Vegfarendur skárust í leikinn en ákærði komst undan á flótta. Hann var svo handtekinn á Vatnsstíg tæpri klukkustund eftir þetta. Hnífurinn varð eftir á vettvangi og var lagt hald á hann.

Ingi Páll gekkst við brotinu fyrir dómi. Hann var auk fimm ára fangelsis dæmdur til að greiða fórnarlambinu 1600 þúsund krónur í miskabætur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×