Lífið

Söngleikur með lögum Magga Eiríks

Magnús Geir Þórðarson Söngleikur með lögum Magnúsar Eiríkssonar er í bígerð.
fréttablaðið/gva
Magnús Geir Þórðarson Söngleikur með lögum Magnúsar Eiríkssonar er í bígerð. fréttablaðið/gva

„Hann er náttúrlega einn allra besti lagahöfundur landsins,“ segir Magnús Geir Þórðarson borgarleikhússtjóri, sem staðfestir að í undirbúningi sé söngleikur með lögum Magnúsar Eiríkssonar. „Það eru flottar sögur í mörgum lögunum hans og við teljum að það sé þarna efni í virkilega flotta sýningu. Hér er verið að velta upp ýmsum hugmyndum um hvernig er hægt að nálgast þetta á sviði. Svo sjáum við til hvað verður úr því.“

Maggi Eiríks er þegar búinn að undirrita viljayfirlýsingu um að söngleikurinn verði gerður og að sögn Magnúsar Geirs er stefnt á að setja hann á fjalirnar á næsta ári ef allt gengur að óskum.

Maggi Eiríks segir að það sé ekki ný hugmynd að gera söngleik eftir lögunum hans. Það hafi þegar verið gert hjá áhugamannaleikhúsi í Borgarfirði með góðum árangri fyrir rúmum áratug síðan. „Þar voru músíkin og textarnir notaðir sem beinagrind í sögu. Þetta var flutt í Borgarfirði og víðar við góðar undirtektir,“ segir Maggi. Hann útskýrir að Jóhann Sigurðarson leikari hafi einnig viljað gera söngleik úr lögum hans og núna hafi Borgarleikhúsið tekið hugmyndina upp á nýjan leik. Spilar þar væntanlega inn í gott gengi ævisögu hans sem kom út fyrir jólin. „Magnús Geir hringdi í mig í haust og vildi skrifa undir viljayfirlýsingu. Boltinn er hjá honum.“

Maggi viðurkennir að það gæti verið mjög gaman að sjá söngleikinn í Borgarleikhúsinu, sérstaklega ef einhver vel valinn aðili myndi annast leikgerðina. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur hinn þrautreyndi Ólafur Haukur Símonarson verið nefndur í þessu samhengi en það hefur ekki fengist staðfest. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.