Innlent

Bændur smala Heimaklett

Heimaklettsfé Um þrjátíu kindur eru allt árið í Heimakletti. Útiganga fjár þar á sér aldagamla sögu.
Heimaklettsfé Um þrjátíu kindur eru allt árið í Heimakletti. Útiganga fjár þar á sér aldagamla sögu.

„Þetta er eldgömul hefð,“ segir Sigurmundur Einarsson, fjárbóndi með meiru í Vestmannaeyjum, sem ásamt öðrum fjáreigendum smalaði í fyrrakvöld útigöngufé í Heimakletti.

Að sögn Sigurmundar hefur fé gengið úti allt árið í Heimakletti í nokkur hundruð ár og sömu ættirnar hafa sinnt því kynslóð eftir kynslóð. „Féð er alltaf rúið í júlí. Þá hefur gamla ullin skilið sig frá nýju ullinni og er orðin laus. Áður en við sleppum rollunum aftur gefum við þeim ormalyf og sprautum lömbin,“ segir Sigurmundur. Ekki eru notaðar rafmagnsklippur við rúninguna heldur aðeins gamaldags áhöld.

Sigurmundur segir smölunina hafa gengið vel enda séu í hópnum menn sem þekki vel til í Heimakletti sem er 280 metra hár og alls ekki fyrir óvana að þvælast í.

„Þetta er yfirleitt fallegra fé heldur en það sem er á húsum,“ segir Sigurmundur um Heimaklettskindurnar. Hann kveður enga ástæðu til óttast að féð fari úr klettinum enda séu þar aðeins björg niður úr. Stundum hrapa þó kindur í Heimakletti.

„Jú, það fer alltaf eitthvað en eins og við segjum þá er það bara heimska féð sem dettur niður þannig að við erum með mjög viturt fé í Vestmannaeyjum,“ segir Sigurmundur Einarsson.

gar@frettabladid.is

Heimaklettsbændur Már Jónsson, Sigurmundur Einarsson og Ágúst Halldórsson huga að fé sínu.
Sigurmundur Einarsson Gamla ullin skilin frá þeirri nýju.


Langt niður Heimaklettur er hár og brattur og ekki fyrir óvana.myndir/óskar p. friðríksson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×