Enski boltinn

Wenger: Þetta var erfiður leikur

Nordic Photos/Getty Images

Lið Arsenal átti frábæra endurkomu í dag þegar það vann 4-1 útisigur á Wigan í ensku úrvalsdeildinni.

Egyptinn Mido kom Wigan yfir snemma leiks og höfðu heimamenn yfir 1-0 í hálfleik.

Arsenal-menn virkuðu nokkuð lúnir á fyrstu mínútunum eftir að hafa spilað erfiðan útileik í Meistaradeildinni í vikunni, en hálfleiksræða Wenger hefur greinilega virkað því liðið sallaði fjórum mörkum á Wigan í síðari hálfleik.

"Þetta var gríðarlega erfiður leikur og mér fannst Wigan nálgast hann eins og bikarleik. Þeir gáfu allt í verkefnið," sagði Wenger í samtali við Sky.

"Það voru nokkrir vendipunktar í þessum leik en að lokum voru það hæfileikar og skapgerð leikmanna sem tryggðu þeim sigurinn. Við vorum dálítið á hælunum í fyrri hálfleik og ég bað strákana að sækja meira. Þeir gerðu það svo sannarlega í síðari hálfleiknum. Við vorum alltaf hættulegir þegar við vorum með boltann," sagði Wenger.

Slæmu tíðindin fyrir Arsenal í leiknum voru þau að Johan Djourou meiddist á hné og útlit er fyrir að hann verði frá keppni í nokkurn tíma. "Þetta er spurning um vikur, frekar en daga," sagði Wenger.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×