Erlent

Marsleiðangri frestað um tvö ár vegna tækjaprófana

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Mars. Er vatn þar? Er líf þar? Er eitthvað þar yfirleitt?
Mars. Er vatn þar? Er líf þar? Er eitthvað þar yfirleitt?

Ákveðið hefur verið að fresta leiðangri til Mars, sem hefjast átti í haust, um tvö ár vegna prófana á tækjabúnaði.

Ætlunin var að nýjasti Marsleiðangur bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA ýtti úr vör í október á þessu ári en bakslag er komið í þær áætlanir. Doug McCuistion, einn stjórnenda Marskönnunardeildar NASA, segir stofnunina einfaldlega þurfa rýmri tíma til að útfæra og prófa allan þann flókna tækjabúnað sem sendur verður til Mars og því hafi menn séð sína sæng upp reidda og frestað leiðangrinum um tvö ár en þannig háttar til að afstaða Mars og jarðarinnar telst einungis hentug geimskotum héðan og þangað í örfáar vikur í senn með tveggja ára millibili.

Ökutækið sem næst þeysir um rauðar sléttur plánetunnar sem fulltrúi NASA er enda hin mesta dvergasmíð og verður látið síga niður úr geimfari sem færir það að yfirborðinu. Þessi nýi gripur verður í stakk búinn til að bera tífalt meira af verkfærum en forverarnir Spirit og Opportunity sem áður geystust um á Mars og mun einnig, standi hann undir væntingum, geta framkvæmt ítarlega könnun á því hvort líf leynist eða hafi einhvern tímann leynst á rauða risanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×