Lífið

Klovn-hjónin héldu jól á Íslandi

Dönsk og íslensk jól Casper Christiansen og Iben Hjele héldu tvenn jól í ár; ein í Danmörku og önnur á Íslandi.
Dönsk og íslensk jól Casper Christiansen og Iben Hjele héldu tvenn jól í ár; ein í Danmörku og önnur á Íslandi.

Þau Iben Hjejle og Casper Christiansen, þekktust hér á landi fyrir leik sinn í Klovn-þáttunum vinsælu, héldu jólin hátíðleg hér á Íslandi. „Það er alltaf jafn yndislegt að koma til Íslands og þessi ferð var engin undantekning," sagði Casper þegar Fréttablaðið náði tali af honum.

Hjónakornin sáust spóka sig um í miðborg Reykjavíkur í gær og komu meðal annars við í versluninni KronKron við Vitastíg og kíktu á vöruúrvalið þar. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eiga Casper og Iben danska vini hér á landi og hafa gist í íbúð vinafólks síns sem staðsett er nálægt Klapparstíg. Þau hafa komið hingað ansi oft og var Iben meðal annars formaður dómnefndar á RIFF-kvikmyndahátíðinni fyrr á þessu ári.

Casper segir að þau hafi eiginlega haldið tvenn jól þetta árið. „Þann 22.desember vorum við með risastór fjölskyldujól heima í Danmörku með börnunum þar sem gjafirnar voru opnaðar og hinn dæmigerði jólamatur reiddur fram. Og þá fengum við hvít jól.

Svo komum við hingað tvö þann 24.desember og vorum hérna yfir hina eiginlegu jólahátíð í ró og næði. Og náðum í skottið á hvítum jólum," segir Casper en það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum höfuðborgarbúa að snjóinn hreinlega kyngdi niður í gær. Casper og Iben héldu síðan heim til Danmörku í dag.-fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.