Söngkonan LeAnn Rimes hefur baðað kærasta sinn, leikarann Eddie Cibrian, í gjöfum frá því þau tóku saman. Samkvæmt vini Rimes hefur hún keypt handa honum armbandsúr frá Hermes, armbönd, flíkur og annað slíkt til að gleðja sinn heittelskaða á erfiðum tímum. Annar vinur söngkonunnar segir sambandið ganga vel en eitt skyggi þó á gleði þeirra.
„LeAnn vildi halda stórt fjölskylduboð um jólin en foreldrar Eddies neita að koma. Þeim finnst það henni að kenna að hjónaband Eddies og fyrrum eiginkonu hans fór í vaskinn. Það hjálpar ekki heldur að Eddie tekur ekki upp hanskann fyrir hana. Hann segir henni að gefa þeim tíma en LeAnn er afskaplega sár."