Innlent

Engin orka til Helguvíkur nema háspennulína fáist í Þorlákshöfn

Það verður ekkert framkvæmdaleyfi veitt fyrir Suðvesturlínum nema háspennulína komi einnig til Þorlákshafnar. Þetta er einróma afstaða sveitarstjórnar Ölfuss, sem ræðir nú við erlenda aðila um bæði sólarflöguverksmiðju og járnblendiverksmiðju og vill að stjórnvöld stuðli að orkufrekum iðnaði í Þorlákshöfn.

Suðvesturlínur verða svo öflugar að Ölfusingar óttast að þær verði nýttar til að flytja alla framtíðarorku Hellisheiðar og Suðurlands til atvinnufyrirtækja á Suðurnesjum og að ekkert verði þá eftir fyrir Þorlákshöfn. Þeir vija fá hluta af rafmagninu til sín og þar sem samþykki þeirra þarf fyrir línulögn um lögsögu sveitarfélagsins frá Hellisheiðarvirkjun áleiðis til Helguvíkur hafa þeir neitunarvald, sem þeir hóta nú að beita.

"Það verður engin Suðvesturlína nema það verði alveg tryggt að línan hingað niður í Þorlákshöfn komi," segir Ólafur Áki Ragnarsson, bæjarstjóri Ölfuss, og segir bæjarstjórnina algerlega samstíga um að standa við þetta.

Sveitarfélagið hefur skipulagt iðnaðarlóðir vestan við Þorlákshöfn og finnur nú á ný fyrir áhuga erlendra fyrirtækja eftir skammvinnt hlé vegna kreppunnar. Þannig funduðu Ölfusingar fyrir um tíu dögum með aðilum sem leita að stað undir sólarflöguverksmiðju og í næstu viku er von á útlendingum sem áforma kísiljárnverksmiðju. Að sögn Ólafs Áka er verið að tala um 200-300 manna vinnustaði sem þurfi 90-180 megavött.

Hann segir að fátt gerist nema ríkisstjórnin hjálpi til. Það þurfi samspil sveitarstjórnar og ríkisstjórnar til að þetta geti orðið að veruleika.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×