Innlent

Norðmenn reyna að tala um fyrir Íslendingum

Fjögurra manna nefnd frá norska Miðflokknum og flokki Jafnaðarmanna kom hingað til lands um helgina í þeim tilgangi að reyna að tala um fyrir Íslendingum og leiða þá í sanninn um að Evrópusambandsaðild muni ekki verða Íslandi hagstæð.

Norska blaðið Aftenposten greinir frá þessu. Að sögn blaðsins hyggst nefndin funda með íslenskum stjórnmálamönnum og -flokkum og meðal annars ræða hugsanlega samvinnu Íslands og Noregs á sviði efnahagsmála. Ekki er nánar tilgreint í hverju sú samvinna gæti falist.

Enn fremur segir Aftenposten nefndina ætla að funda með Geir H. Haarde forsætisráðherra og hófst sá fundur í forsætisráðuneytinu nú undir hádegi.

Rakið er í frásögn blaðsins að tveir íslenskir stjórnmálaflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, hafa flýtt landsfundum sínum til þess sérstaklega að fjalla um hugsanlega aðildarumsókn og því sé ekki seinna vænna fyrir norsku stjórnmálamennina að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við þá íslensku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×