Frumsýning á Voltaic, upptöku af hljómleikum Bjarkar í París og á Íslandi sem sýndir eru í fullum hljóðgæðum í Háskólabíói, er í dag. Um leið er fagnað útgáfu Voltaic, safni með tónleikunum, „live“ hljóðupptöku, endurhljóðblöndunum og myndböndum.
Björk segir útgáfuna lið í því að vinna úr hljómleikaupptökum jafnóðum „svo Volta komi ekki út 2019“ en einnig viðbrögð við hraða netsins. „Þetta með netið og YouTube, allar þessar sjóræningjaútgáfur, hálftíma eftir tónleikana eru þeir bara komnir á netið. Sem mér finnst frábært. En hljómgæðin eru frekar lítil og upptakan bara einhver hrist myndavél frá einu sjónarhorni. Það er svona meira pönkútgáfan. Ég vildi að fólk gæti valið að heyra þetta eins og ég var með þetta í hausnum, með miklum hljóðgæðum, tekið upp með góðum myndavélum.“
Hún segir upptökuna góða heimild og sýna hversu miklum jákvæðum stakkaskiptum Volta tók á túrnum. „Brassstelpurnar voru rosalega duglegar, þær tóku það upp hjá sjálfum sér að æfa á hverjum degi á hótelinu, við fengum alltaf fundarherbergið. Þær urðu því alltaf betri og betri og í lok túrsins voru þær orðnar mjög þéttar.“
Í helgarviðtali Fréttablaðsins má lesa um seinasta ár í lífi Bjarkar og plön hennar fyrir framtíðina. Þar segir hún frá því hvernig hún þurfti að læra á röddina upp á nýtt, hvað hún var að gera í Suður-Ameríku og að sjálfsögu allt um Voltu og Voltaic.