Sport

Ólafur áfram með Blika

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks. Mynd/Anton

Ólafur Kristjánsson mun halda áfram að þjálfa lið Breiðabliks í Pepsi-deild karla en hann gekk frá þriggja ára samningi við félagið í kvöld.

Undir hans stjórn hefur liðið náð góðum árangri í Pepsi-deild karla og er þar að auki komið í úrslit bikarkeppninnar í fyrsta sinn síðan 1971. Blikar eru með ungt lið og misstu marga af byrjunarliðsmönnum sínum frá því í fyrra.

„Í byrjun júlí var fundur með stjórn og leikmönnum og lýsti þá stjórnin vilja sínum til að halda samstarfinu áfram. Við höfum svo verið að vinna í samkomulaginu undanfarnar 3-4 vikur og gengum frá þessu í kvöld," sagði Ólafur í samtali við Vísi.

„Þetta hefur því ekkert með það að gera að við tryggðum okkur í úrslit bikarsins í gær eða vegna þess að liðið hefur verið á ágætu skriði," bætti hann við.

Hann segist afar ánægður hjá Breiðabliki. „Ég er með frábæran leikmannahóp í höndunum og finnst ég ekki búinn með það sem mig langar að gera með þessum strákum. Fyrst traustið var til staðar hjá stjórninni var vilji hjá mér til að halda áfram."

„Ég er mjög ánægður með sumarið. Það er ekkert víst að við værum ekki á þeim stað sem við erum á í dag ef við hefðum ekki mætt neinu mótlæti. Meira að segja það neikvæða hefur verið jákvætt."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×