Innlent

Ekki einhugur um staðsetninguna

Landspítalinn við Hringbraut. Staðsetning nýrrar byggingar verður til umræðu á málþingi á morgun.
Landspítalinn við Hringbraut. Staðsetning nýrrar byggingar verður til umræðu á málþingi á morgun.

„Þetta málþing er hugsað fyrir alla sem hafa áhuga á að átta sig á málum sem tengjast væntanlegu háskólasjúkrahúsi, staðsetningu og byggingu,“ segir Gestur Ólafsson, einn aðstandenda málþingsins, Nýr Landspítali – hvar, hvernig og fyrir hverja.

Gestur segir að mikil viðbrögð sem hann og Árni Gunnarsson, stjórnarmaður í framkvæmdanefnd um byggingu nýs Landspítala - háskólasjúkrahúss, hafi fengið við aðsendri grein í Morgunblaðinu hafi sannfært þá um að þörfin fyrir málþing væri til staðar. Í greininni er meðal annars bent á að ódýrara væri að reisa nýtt sjúkrahús austar í borginni en á reitnum sem nú er um rætt, við Hringbrautina. Gestur gagnrýnir að ljúka eigi hönnun hússins áður en lokið hefur verið við skipulag svæðisins og bendir á að alls ekki ríki einhugur um staðsetningu sjúkrahússins.

Á málþinginu taka til máls einstaklingar frá ýmsum geirum sem tengjast byggingu þess. Má þar nefna Sigurð Guðmundsson, forseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ, sem ræða mun fyrir hvern og hverja spítalinn er, Sigríði Kristjánsdóttur skipulagsfræðing sem ræða mun staðsetningu nýja spítalans og Magnús Skúlason, formann Íbúasamtaka miðborgarinnar, sem mun ræða samspilið við nágrenni spítalans. Málþingið hefst klukkan 10 á laugardag og því lýkur klukkan 15. Það er haldið í húsi Íslenskrar erfðagreiningar. Aðgangur er ókeypis.- sbt




Fleiri fréttir

Sjá meira


×