Innlent

Pressupennar pönkast hvor á öðrum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Prófessorinn og lögmaðurinn hafa löngum eldað grátt silfur saman.
Prófessorinn og lögmaðurinn hafa löngum eldað grátt silfur saman.
Pressupennarnir Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor og Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður eru komnir í hár saman á netinu. Rætur deilna þeirra má rekja til skrifa Sigurðar G. Guðjónssonar á Pressunni þar sem hann fjallar meðal annars um þá afstöðu sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, kann að taka til Icesave frumvarpsins eftir að það verður samþykkt frá Alþingi.

Hannes furðar sig á ummælum Sigurðar og segir að Sigurður hafi verið einn ákafasti útrásarlögfræðingurinn. Hann hafi veitt Landsbankanum margvíslega ráðgjöf, á meðan hann var einkabanki. Þá spyr Hannes hvort Sigurður hafi varað við Icesave-reikningunum. Hannes bendir jafnframt á að Sigurður hafi setið í stjórn Glitnis, þegar bankinn féll og verið stjórnarformaður Fons hf., sem er gjaldþrota.

Þessum ummælum vísar Sigurður til föðurhúsanna. „Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, veitt Landsbanka Íslands lögfræðiráðgjöf. Hef heldur aldrei verið lögfræðingur eins eða neins útrásarvíkings. Hef hins vegar glímt við nokkra þeirra fyrir skjólstæðinga mína. Ég kom inn í stjórn Fons að beiðni gamals skjólstæðings míns, Pálma Haraldssonar, eftir bankahrun haustið 2008," segir Sigurður í pistli sínum á Pressunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×