Erlent

Ætlar að sannfæra þingið

Útlistar áform sín Obama mætti á fund verkalýðshreyfingar Bandaríkjanna á mánudag þar sem hann útskýrði þær breytingar sem hann vill gera á heilbrigðistryggingum. fréttablaðið/AP
Útlistar áform sín Obama mætti á fund verkalýðshreyfingar Bandaríkjanna á mánudag þar sem hann útskýrði þær breytingar sem hann vill gera á heilbrigðistryggingum. fréttablaðið/AP

Barack Obama flytur í kvöld sjónvarpsávarp til þjóðarinnar um þær breytingar á heilbrigðiskerfi landsins, sem hann hefur í allt sumar reynt að fá þingið til að samþykkja.

Obama er enn staðráðinn í að koma málinu í gegnum þingið, en strandað hefur á harðri andstöðu repúblikana og hluta Demókrataflokksins sem telja rangt að ríkið fari í samkeppni við einkafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu.

Bill Clinton, fyrrverandi forseti, kom Obama til hjálpar í gær og hvatti demókrata til að samþykkja frumvarpið og láta andstöðu repúblikana sem vind um eyru þjóta.

Sjálfum mistókst Clinton á forsetatíð sinni að sannfæra þingið um nauðsyn þess að útvega öllum Bandaríkjamönnum heilbrigðistryggingar. Hann sagðist þó sannfærður um að Obama tækist að ná þessu gamla baráttumáli demókrata fram.

Í gær ræddi Obama við nemendur í framhaldsskóla í Virginíu, þar sem hann hvatti unga fólkið til þess að einbeita sér að náminu og fara varlega á netinu. Ávarpi hans var sjónvarpað til skóla vítt og breitt um Bandaríkin, en margir hafa gagnrýnt að forsetinn skuli nota skóla landsins sem vettvang fyrir pólitík. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×