Lífið

Hefur ekki séð annað eins klúður á tuttugu ára ferli

Aldrei upplifað annað eins Andrew Lockhart hefur unnið í tískubransanum í tuttugu ár. Hann segir tískuvikuna íslensku hafa verið klúður. fréttablaðið/stefán
Aldrei upplifað annað eins Andrew Lockhart hefur unnið í tískubransanum í tuttugu ár. Hann segir tískuvikuna íslensku hafa verið klúður. fréttablaðið/stefán

„Þetta hafði alla burði til að verða stórkostlegur viðburður og þetta hefði átt að vera stórkostlegt. Ég var búinn að leggja mikið á mig til að fá hingað fjölmiðlafólk frá ýmsum þekktum tískutímaritum og unga, efnilega hönnuði og þess vegna finnst mér mjög miður að svona skyldi fara,“ segir Andrew Lockhart, einn skipuleggjenda Iceland Fashion Week.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að allt hefði farið í háaloft á tískuvikunni eftir ósætti milli hönnuða og Kolbrúnar Aðalsteinsdóttur, stjórnanda hátíðarinnar. Mikið hefur verið fjallað um atburðinn í erlendum fjölmiðlum og segir bandaríski blaðamaðurinn Cator Sparks að hátíðin hafi verið hræðileg. Þess má geta að hinn virti tískubloggari Diane Pernet skrifaði grein um ófagmannlega framkomu Kolbrúnar síðast þegar hátíðin var haldin árið 2005.

„Ég hef unnið í tískubransanum í tuttugu ár og hef aldrei orðið vitni að öðru eins. En sem betur fer má segja að úr ösku Iceland Fashion Week hafi risið nýr viðburður sem var skapaður af þeim ungu hönnuðum sem sýndu á Nasa á laugardag,“ segir Lockhart. Nokkrum hönnuðum sýningarinnar þótti nóg komið þegar þeir áttu að sýna á rennvotum palli við afar slæmar aðstæður og ákváðu því að taka ekki þátt í tískusýningunni á ljósanótt á laugardag.

„Kolbrún Aðalsteinsdóttir, eigandi hátíðarinnar, vildi alls ekki koma til móts við hönnuðina á nokkurn hátt. Það endaði með því að við færðum sýninguna á Nasa og var það gert í óþökk Kolbrúnar. Mér þótti þetta mjög leitt því ég hef verið vinur Kolbrúnar í mörg ár, en ég varð að taka ákvörðun fyrst og fremst á faglegum forsendum.“

Andrew hefur komið að skipulagningu tískusýningarinnar allt frá árinu 2003 en segir að þetta verði í síðasta sinn sem hann setji nafn sitt við þennan viðburð. „Þetta er í síðasta sinn sem ég mun koma að þessari tískuviku, en ég held ekki að Kolbrún muni gefast upp. Ég held að hún muni halda áfram að vinna að Iceland Fashion Week. Ég fyrir mína parta biðst afsökunar á þessu klúðri og vona innilega að umfjöllun um tískuvikuna í erlendum fjölmiðlum einblíni ekki aðeins á hið neikvæða.

Margir lögðu allt sitt undir til að koma til Íslands og fá að vera með og þeir eiga betra skilið en þetta.“ sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.