Innlent

Lán Svía háð mati AGS

Sigríður Mogensen skrifar

Svíar ætla ekki að lána Íslendingum fyrr en stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkir endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Þetta kemur fram í svari sænskra stjórnvalda við fyrirspurn fréttastofu.

Norðurlöndin hétu í júní að lána Íslendingum samtals tvo og hálfan milljarð bandaríkjadala. Óljósar fregnir hafa borist af því hvort lánveitingin sé háð samþykki Alþingis á Icesave samingunum eða einungis háð endurskoðun á samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Fréttastofa sendi fyrirspurn til sendiráða Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands og Noregs þar sem óskað var eftir svari við þessu. Svar barst frá sendiráði Svíþjóðar í dag fyrir hönd sænska fjármálaráðuneytisins.

Þar segir að Norðurlöndin séu reiðubúin að aðstoða Ísland í erfiðum aðstæðum með því að veita landinu lán og styðja þannig við samstarfsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Samkvæmt lánasamningum Íslands og Norðurlandanna sé ætlast til að Ísland virði alþjóðlegar skulbdindingar sínar. Þar á meðal skuldbindingar vegna innistæðutrygginga.

Í svarinu segir að lánið frá Svíþjóð verði einungis veitt eftir að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur samþykkt og endurskoðun á áætlun íslenskra stjórnvalda og sjóðsins. Sjónarmið Svíþjóðar sé að samþykki sjóðsins sé háð því að Íslendingar sýni í verki vilja sinn til að virða alþjóðlegar skuldbindingar.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×