Erlent

Tugir hafa farist í flóðunum

Klifið upp á fjallið Arafat Milljónir múslima úr öllum heimshornum eru komnar til Sádi-Arabíu.fréttablaðið/AP
Klifið upp á fjallið Arafat Milljónir múslima úr öllum heimshornum eru komnar til Sádi-Arabíu.fréttablaðið/AP

Tugir manna hafa farist og bjarga þurfti um þúsund manns úr flóðum í Sádi-Arabíu. Milljónir pílagríma eru komnar til landsins og hætta er á frekari rigningum.

Á miðvikudag rigndi meira á þessum slóðum en þekkst hefur undanfarin ár. Nærri fimmtíu manns fórust þann daginn, í borgunum Jeddah, Rabigh og Mekka, en enginn þeirra var þó úr röðum pílagrímanna.

Aðrar hættur steðja að pílagrímum í Mekka, þar á meðal svínaflensan sem veldur bæði þátttakendum og íbúum í Sádi-Arabíu ugg. Af þeim sökum eru margir með klút fyrir vitum sér á göngunni. Stjórnvöld hafa í samvinnu við Bandaríkin sett upp hjúkrunarstöðvar og gripið til fleiri aðgerða.

Þar á ofan er ár hvert veruleg hætta á því að pílagrímar troðist undir í mannfjöldanum. Árið 2006 þurfti ekki annað en að pílagrímur missti farangur sinn sem flæktist síðan fyrir fótum þeirra sem á eftir komu, og kostaði það 360 manns lífið.

Pílagrímaferðir múslima í Mekka og nágrenni standa yfir í fjóra daga, og hófst formlega gangan síðastliðinn miðvikudag. Þetta árið er talið að um þrjár milljónir múslima frá öllum heimshornum hafi lagt leið sína til Sádi-Arabíu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×